Strákar úr Smárahverfi safna fyrir hjálparstarfi

30. sep. 2005

Hilmar Jökull og Sindri Þór með ágóðann af tombólunni.
Tveir strákar úr Smárahverfi, Hilmar Jökull Sigurðsson og Sindri Þór Stefánsson, afhentu í dag Kópavogsdeild ágóða af tombólu sem þeir héldu fyrir stuttu á Smáratorgi og fyrir framan róluvöll í hverfinu sínu. Strákarnir söfnuðu samtals 4.071 kr. sem fer í að styrkja börn í neyð í gegnum verkefni Rauða krossins erlendis.

Strákunum var kunnugt um starfsemi Rauða krossins enda hafði annar þeirra tekið þátt í sumarnámskeiðinu Mannúð og menning sem Kópavogsdeild hélt í sumar. Auk þess urðu strákarnir varir við söfnunina Neyðarhjálp úr norðri fyrr á þessu ári til styrktar fórnarlömbum fljóðbylgjunnar í Asíu.

Í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar, Hamraborg 11, er tekið vel á móti þeim sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni. Ungmenni fá lítinn glaðning og myndasögu um upphaf Rauða krossins. Ef tími gefst er einnig hægt að horfa á myndbönd um verkefni Rauða krossins. Flestir hafa líka gaman af því að fá mynd birta af sér í Kópavogspóstinn og Morgunblaðið.