Fjórir vinir safna fyrir bágstöddum börnum

7. okt. 2005

Brynjar, Breki, Harpa og Aníta.

Vinirnir Aníta Sævarsdóttir, Harpa Haraldsdóttir og Breki og Brynjar Arndal héldu nýlega tvær tombólur fyrir utan Nóatún í Hamraborg. Þau söfnuðu alls 3.362 kr. sem þau afhentu Kópavogsdeild Rauða krossins. Þeim var umhugað um að peningarnir færu í að aðstoða veik og bágstödd börn í útlöndum.

Hópurinn boðaði síðan komu sína fljótt aftur í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með annað framlag því þau áttu enn til varning sem þau ætla sér að koma í verð með enn annarri tombólu.

Í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar, Hamraborg 11, er tekið vel á móti þeim sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni. Opið er virka daga kl. 11-15.