Margt góðra gesta í 7 ára afmæli Dvalar

12. okt. 2005

Ljúffengar veitingar voru á boðstólnum í afmælinu.

Mánudaginn 10. október var veisla í Dvöl til að fagna 7 ára afmæli starfseminnar. Um leið var haldið upp á alþjóðlega geðheilbrigðis-daginn sem ber upp á þennan dag árlega. Margir góðir gestir komu í afmælisboðið í Dvöl og gæddu sér á ljúffengum veitingum. Sumir voru að koma í fyrsta skipti, svo sem hópur nemenda í afbrigða-sálfræði í MK sem eru að læra um geðraskanir og fengu fræðslu um Dvöl og Rauða krossinn í kennslustund fyrir skömmu.

Afmælisgestirnir veittu eftirtekt flottum málverkum í listasmiðjunni sem gestir Dvalar hafa unnið við að undanförnu undir leiðsögn sjálfboðaliða frá Svíþjóð sem mun starfa í Dvöl næstu mánuði.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Gestir koma í Dvöl á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem er í boði. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Sjálfboðaliðar hafa verið virkir  í rekstri Dvalar frá upphafi og sjá m.a. um að halda opnu húsi á laugardögum.

Dvöl er til húsa í Reynihvammi 43. Nánari upplýsingar um starfsemina er á heimasíðu Dvalar.