Öflugt Rauða kross starf á höfuðborgarsvæðinu

13. okt. 2005

Sigrún Jóhannsdóttir, fráfarandi formaður svæðisráðs á höfuðborgarsvæði, og Jóhann Gunnar Gunnarsson, nýr formaður ráðsins.

Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins sóttu í gærkvöldi svæðis-fund allra deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu sem haldinn var í Hafnarfirði. Á fundinum urðu formannaskipti í svæðisráði og farið var yfir stöðu nokkurra samstarfsverkefna eins og nýstofnaðrar neyðarnefndar sem hefur umsjón með neyðarvarna-skipulagi Rauða krossins á svæðinu. 

Á fundinum var einnig fjallað um umfangsmikla fatasöfnun og fataflokkun deildanna sem fjölmargir sjálfboðaliðar taka þátt í, svo sem með úthlutun fatnaðar í neyðaraðstoð og afgreiðslustörf í fataverslunum Rauða krossins á Laugavegi 12 í Reykjavík og Strandgötu 24 í Hafnarfirði.

Sigrún Jóhannsdóttir, fráfarandi formaður svæðisráðs og fulltrúi Álftanesdeildar, flutti skýrslu ráðsins auk þess sem hún fór yfir fjárhags- og framkvæmdaáætlun næsta árs. Í máli Sigrúnar kom fram að svæðasamstarfið hefur gengið mjög vel undanfarið starfsár og mörg spennandi verkefni bíða deildanna. Á fundinum tók nýr formaður svæðisráðs, Jóhann Gunnar Gunnarsson, fulltrúi Reykjavíkurdeildar, við formennsku.

Páll Biering geðhjúkrunarfræðingur var sérstakur gestur á fundinum og  stýrði umræðu um möguleika Rauða krossins til að bæta stöðu geðfatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Í umræðunni voru hafðar til hliðsjónar niðurstöður rannsóknar um þjónustuþarfir geðsjúkra og reynslu þeirra af geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi, rannsókn sem Páll vann fyrir Rauða kross Íslands ásamt Guðbjörgu Daníelsdóttur sálfræðingi.

Deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu eru auk Kópavogsdeildar: Reykjavíkurdeild, Hafnarfjarðardeild, Garðabæjardeild, Álftanesdeild og Kjósarsýsludeild. Auk áðurnefndra samstarfsverkefna má nefna þátttöku í rekstri Fjölsmiðjunnar sem er verkþjálfunar- og framleiðslusetur fyrir 16-24 ára ungmenni, fræðslu um Rauða krossinn í grunnskólum og sumarnámskeið fyrir börn og ungmenni. Fulltrúi Kópavogsdeildar í svæðisráði er Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir.