Ungum innflytjendum boðið á Annie

17. okt. 2005

Hluti af krökkunum með Annie eftir sýninguna.
Starf Kópavogsdeildar með ungum innflytjendum tók nýja stefnu á sunnudaginn þegar sjálfboðaliðar tóku krakkana með sér á söngleikinn Annie. Krakkarnir höfðu aldrei farið í leikhús áður og forsvarsmenn Annie brugðust vel við og buðu þeim á sýninguna.

Krakkarnir vissu ekki við hverju var að búast en eftir sýninguna ljómuðu andlit þeirra af ánægju. Það vakti síðan enn meiri lukku þegar sýningarstjórinn bauð þeim upp á svið til þess að skoða leikmunina og fór svo með hópinn baksviðs til að spjalla við nokkra af leikurunum. Aðalsöguhetjan, sjálf Annie, áritaði veggspjald fyrir krakkana sem hengt hefur verið upp í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar.

Starf Kópavogsdeildar með ungum innflytjendum miðar að því að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er í samvinnu við móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og fá meðal annars málörvun og fræðslu um tómstundastarf í gegnum kynningarstarf og vettvangsferðir.