Ný stefna Kópavogsdeildar lítur brátt dagsins ljós

26. okt. 2005

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar funduðu í gær um drög að nýrri stefnu og verkefnaáætlun deildarinnar. Á fundinum komu fram gagnlegar ábendingar um áherslur í starfi deildarinnar. „Ég vil þakka sjálfboðaliðum deildarinnar kærlega fyrir að hafa með þessum hætti tekið þátt í að hafa áhrif á stefnu og verkefni deildarinnar“, sagði Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, í lok fundarins.

Ný stefna deildarinnar mun ná yfir tímabilið 2006-2010 og taka við af núverandi stefnu sem hefur verið í gildi árin 2003 til 2005. Hin nýja stefna og verkefnaáætlun byggir á stefnumótun sem hefur staðið yfir undanfarnar vikur þar sem fjórir hópar, sem aðallega voru skipaðir sjálfboðaliðum deildarinnar auk starfsfólks, skiptu með sér endurskoðun á núgildandi stefnu. Öllum sem tóku þátt í stefnumótuninni eru færðar bestu þakkir fyrir.

Í stefnumótuninni var höfð til hliðsjónar stefna Rauða kross Íslands til 2010 sem ber heitið Frá orðum til afhafna. Niðurstaðan varð sú að ekki þarf að gera róttækar breytingar á núgildandi stefnu deildarinnar enda byggir hún á ítarlegri þarfagreiningu sem var gerð veturinn 2003 og stenst enn sem komið er tímans tönn. Eigi að síður eru ýmsar breytingar og viðbætur í nýrri stefnu sem er ætlað að gera starf deildarinnar markvissara og öflugra.

Þau drög sem nú liggja fyrir að nýrri stefnu og verkefnaáætlun munu koma til afgreiðslu hjá stjórn deildarinnar á næsta fundi hennar 1. nóvember. Samþykkt stefna og verkefnaáætlun verður síðan birt hér á vefnum innan skamms.