Góð þátttaka á námskeiðum í skyndihjálp

4. nóv. 2005

Námskeið í skyndihjálp hafa verið vinsæl að undanförnu hjá Kópavogsdeild. Vegna mikillar eftirspurnar verður aukanámskeið í viðbrögðum og vörnum gegn slysum á börnum 21. og 22. nóvember kl. 19-22. Uppselt er á námskeið í skyndihjálp 14. nóvember. Áhugasamir eru þó hvattir til að hafa samband því hægt er að skipuleggja annað námskeið á næstunni ef þátttaka leyfir.

Um er að ræða fjögurra klukkustunda námskeið þar sem þátttakendur læra grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þátttakendur verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað. Námskeiðið byggist á glænýju kennsluefni sem er í takt við nýjustu aðferðir í skyndihjálp og slysaforvörnum.

Á námskeiðinu Slys á börnum læra þátttakendur að þekkja varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Leiðbeint er í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og sálrænum stuðningi við börn. Námskeiðið hentar vel foreldrum, dagforeldrum og öðrum umsjónarmönnum barna. Þau ummæli sem námskeiðið hefur fengið meðal þátttakenda er að það ætti að vera skyldunámskeið fyrir alla foreldra.

Skráning á námskeið er í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is