Fjölmennt fræðslukvöld um geðraskanir
Rauði krossinn rekur eins og kunnugt er þrjú athvörf fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu: Dvöl í Kópavogi, Læk Hafnarfirði og Vin í Reykjavík. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun geðfatlaðra og styrkja með samneyti við aðra andlega og líkamlega heilsu. Þar sem athvörfin eru þrjú á höfuðborgarsvæðinu þykir tilvalið að standa að sameiginlegum fræðslukvöldum og frumraunin var nú í vikunni.
![]() |
Veggspjald sem gestir Dvalar útbjuggu. |
Ingólfur Sveinsson geðlæknir hélt erindi um streitu og svefnvenjur og gerði því svo góð skil að hann var hvattur til að lengja erindið sem hann og gerði. Þegar Ingólfur lauk máli sínu var orðið áliðið enda höfðu skapast miklar umræður um efnið. Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur sem átti að vera með síðasta erindið lagði því til að því yrði frestað, þetta hefði verið velheppnað kvöld og því engin ástæða til annars en að endurtaka það fljótt og þá skyldi hún flytja sitt erindi. Var gerður góður rómur að því og stefnt er að því að endurtaka leikinn fljótlega á nýju ári.
- Eldra
- Nýrra