Sjö ára nemendur í Hjallaskóla styðja börn í Sri Lanka

24. nóv. 2005

Nemendurnir ásamt Garðari H. Guðjónssyni, formanni Kópavogsdeildar, sem tók við söfnunarfénu. Sigríður Stefánsdóttir umsjónarkennari er lengst til hægri.
Nemendur í bekknum 2.S.S. í Hjallaskóla afhentu Rauða krossi Íslands afrakstur af fjársöfnun sinni fyrir bágstödd börn. Söfnunarfénu verður varið í stuðning við börn í Sri Lanka. Hugmyndin að söfnuninni varð til í tíma í samfélagsfræði þegar nemendurnir voru að læra um mismunandi lífskjör og hvernig væri hægt að hjálpa öðrum.

Krakkarnir söfnuðu alls 11.057 kr. með fjölbreyttum hætti, svo sem með því að safna flöskum og dósum, halda tombólur og einn nemandinn gaf hluta af peningum sem hann hafði nýlega fengið í afmælisgjöf. Kennslustundir í samfélagsfræði og kristinfræði voru nýttar undir söfnunina og fræðslu henni tengdri en þar að auki urðu stærðfræðitímarnir mjög vinsælir þegar þeir voru nýttir í flokkun og talningu á drykkjarílátum sem höfðu safnast.

Einn nemandinn sýnir útreikninginn á söfnunarfénu.

Garðar Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar Rauða krossins, heimsótti nemendurna í skólann og tók við söfnunarfénu. Hann tilkynnti krökkunum að framlaginu yrði varið í verkefni Rauða krossins til stuðnings börnum í Sri Lanka sem urðu fyrir áfalli sökum flóðbylgjunnar fyrir tæpu ári síðan. Garðar minntist á hugtakið sjálfboðaliði og að með söfnun sinni væru krakkarnir búnir að vera í hlutverki sjálfboðaliða Rauða krossins. Steina Ólafsdóttir, sendifulltrúi Rauða kross Íslands, sagði krökkunum síðan í máli og myndum frá starfi sínu í Afganistan en þar tók hún meðal annars þátt í að fylgja á eftir verkefni til styrktar afgönskum börnum sem var fjármagnað með afrakstrinum af tombólum íslenskra barna.

Einn nemandinn benti réttilega á að Rauði krossinn væri starfandi um allan heim. Annar nemandi hafði teiknað fallega mynd af Rauða krossinum sem Kópavogsdeild Rauða krossins var færð að gjöf en myndin verður hengd upp í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg 11.