Húsfyllir á fögnuði sjálfboðaliða

8. des. 2005

Þráinn Bertelsson las úr bók sinni Valkyrjur.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fjölmenntu á fögnuð deildarinnar í tilefni alþjóðadags sjálfboðaliðans. Á meðan mest var voru um fimmtíu sjálfboðaliðar og gestir þeirra samankomnir í sjálfboðamiðstöðinni.

Sjálfboðaliðar úr fjölbreyttum verkefnum komu saman, svo sem heimsóknavinir sem heimsækja fólk sem býr við einsemd og einangrun, sjálfboðaliðar í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, sjálfboðaliðar sem starfa að neyðarvörnum, öflugar hannyrðakonur í verkefninu Föt sem framlag, stjórnarmenn deildarinnar og sjálfboðaliðar í starfi með ungum innflytjendum.

Vallargerðisbræður sungu nokkur sígild lög.
Þráinn Bertelsson uppskar hlátur og umræður við lestur úr nýjustu bók sinni Valkyrjur því þótt sagan sé glæpasaga með dramatískri atburðarás er kímni Þráins sem og þjóðfélagsádeila áberandi. Oddný Sturludóttir hélt líflegt erindi undir yfirskriftinni „Jólympíuleikar“ þar sem hún vakti fólk til umhugsunar um hið þráláta íslenska jólastress og eyðslusemi sem gerir jólin ekkert endilega betri því eftir allt saman er það samvera með okkar nánustu sem ein og sér er dýrmætust. Að lokum sló karlakvartettinn Vallargerðis-bræður í gegn með fögrum söng.

Árið 1985 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 5. desember alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Tilgangurinn var sá að vekja athygli á framlagi sjálfboðaliða til samfélagsins. Rauði krossinn er stærsta sjálfboðahreyfing í heimi með samtals um 100 milljón sjálfboðaliða í 183 löndum. Innan Rauða kross Íslands starfa um 1100 sjálfboðaliðar og rúmlega 100 þeirra eru í verkefnum á vegum Kópavogsdeildar.