Dvöl hlýtur styrk í ferðasjóð

15. des. 2005

Fulltrúar Sorpu, Dvalar, Lækjar og Vinjar við afhendingu styrksins.
Sorpa afhenti athvörfunum Dvöl, Læk og Vin styrk í ferðasjóð að upphæð 70.000 kr. fyrir hvert athvarf. Sorpa veitir styrkinn í stað þess að senda viðskiptavinum sínum jólakort í ár. Athvörfin þrjú eru athvörf Rauða krossins fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu því auk Dvalar í Kópavogi er Vin í Reykjavík og Lækur í Hafnarfirði.

Ferðalög eru kærkomin upplyfting fyrir gesti athvarfanna sem margir treysta sér ekki í ferðalög upp á eigin spýtur. Í öllum athvörfunum er safnað peningum í sérstaka ferðasjóði sem nýttir eru til ferðalaga innanlands sem utan.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Gestir koma í Dvöl á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem er í boði. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Sjálfboðaliðar hafa verið virkir  í rekstri Dvalar frá upphafi og sjá m.a. um að halda opnu húsi á laugardögum.

Dvöl er til húsa í Reynihvammi 43. Nánari upplýsingar um starfsemina er á heimasíðu Dvalar.