Fjölmenn aðventuhátíð heimsóknavina í Sunnuhlíð

15. des. 2005

Heimsóknavinir stjórnuðu fjöldasöng og undirspili á aðventuhátíðinni.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar skipulögðu í vikunni aðventuhátíð í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Samkomusalurinn var þéttsetinn á hátíðinni enda öllum vistmönnum Sunnuhlíðar boðið auk þess sem nokkrir aðstandendur tóku þátt.

Sjálfboðaliðarnir, sem allir eru úr hópi heimsóknavina deildarinnar, stjórnuðu fjöldasöng á jólalögum í bland við önnur lög. Undirspilið var ýmist frá harmonikku, gítar eða munnhörpu.

Nokkrir af sjálfboðaliðunum höfðu tekið með sér heimalagaðar pönnukökur og annað góðgæti og sú viðbót við kaffiveitingarnar vakti lukku.

Öflugur hópur um 20 sjálfboðaliða Kópavogsdeildar tengist Sunnuhlíð. Á virkum dögum sem og laugardögum standa sjálfboðaliðarnir fyrir samverustundum þar sem þeir spjalla við íbúana og lesa fyrir þá. Sjálfboðaliðar fara einnig í gönguferðir með þá sem vilja, spila á spil og tefla við áhugasama. Með jöfnu millibili eru síðan viðburðir á borð við bingó, dagsferðir og öskudagsfagnað.