Nemendur MK velja áfanga um sjálfboðið starf

12. jan. 2006

Nemendur MK hafa áður kynnst starfi Rauða krossins í gegnum fræðslu í nokkrum námsáföngum.

Á þessari önn gefst nemendum Menntaskólans í Kópavogi í fyrsta sinn kostur á að velja áfangann SJÁ 102 sem felur í sér sjálfboðið starf í samráði við Kópavogsdeild Rauða krossins. Kennarar í MK og fulltrúar Kópavogsdeildar tóku sig saman um að hanna áfangann með það að markmiði að gefa nemendum færi á að kynnast sjálfboðnu starfi og fá það metið sem hluta af námi sínu.

Nemendur munu sinna verkefnum á borð við aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Í lok annar skipuleggja nemendurnir og hafa umsjón með fatamarkaði sem verður haldinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar. Allur ágóði af markaðnum rennur til styrktar ungmennum í neyð erlendis.

Í tengslum við áfangann munu nemendurnir fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.