Rauði krossinn æfir viðbrögð vegna bruna í fjölbýlishúsi

18. jan. 2006

Sjálfboðaliðar léku íbúa fjölbýlishússins og skráðu sig í fjöldahjálparstöðina.

Á laugardaginn voru æfð viðbrögð Rauða krossins við aðstoð íbúa sem þurfa að yfirgefa heimili sín vegna bruna í íbúablokk. Opnuð var fjöldahjálparstöð í Fellaskóla og komu 25 manns í stöðina og veittu fulltrúar Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði almenna umönnun, sálrænan stuðning og skyndihjálp.

Neyðarnefndin var staðsett í Fellaskóla þar sem 15 þjálfaðir fjöldahjálparstjórar voru að störfum auk starfsfólks frá skólanum. Samhliða voru tveir fulltrúar landsskrifstofu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni og æfðu úrvinnslu skráningar og aðra aðstoð vegna aðgerðarinnar.

Anna Bryndís Hendriksdóttir og Herdís Sigurjónsdóttir stóðu vaktina í samhæfingarstöðinni.
Hjálparsíminn 1717 var virkjaður og voru fjórir að störfum við að svara skelkuðu fólki sem hringdi inn til að fá upplýsingar um ættingja og vini sem þeir óttuðust um. Einnig áttu íbúar úr þeim blokkum sem rýmdar voru að veita Hjálparsímanum 1717 upplýsingar um aðsetur sitt, tryggingarfélag og fleira. Samtals tóku um 50 manns þátt í æfingunni.

Æfingin tókst ágætlega en þetta var fyrsta æfing nýstofnaðrar neyðarnefndar Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæðinu sem hefur það hlutverk að skipuleggja og stjórna hjálparstarfi félagsins á svæðinu þegar virkja þarf fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf.