Tombólubörn í Kópavogi söfnuðu 77.046 krónum árið 2005

23. jan. 2006

 
Á nýliðnu ári söfnuðust samtals 77.046 krónur fyrir tilstilli 66 ungra Kópavogsbúa sem héldu tombólur, skipulögðu flöskusafnanir eða söfnuðu fyrir félagið með öðrum hætti. Krakkarnir fengu góðar móttökur í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og þar var séð til þess að mynd af þeim rataði í fjölmiðla. Kópavogsdeild þakkar þessum dugmiklu krökkum fyrir stuðning þeirra við starf félagsins en allur ágóði af söfnun krakkanna rennur til stuðnings börnum í neyð í gegnum Rauða kross verkefni erlendis. Nú í byrjun nýs árs hafa fleiri Kópavogskrakkar sýnt hug sinn í verki og safnað fyrir Rauða krossinn. Sjá umfjöllun um þá hér að neðan.

Aníta og Ástrós.
Nýlega afhentu vinkonurnar Aníta Sævarsdóttir og Ástrós Ómarsdóttir Kópavogsdeild Rauða kross Íslands 1.651 kr. sem var ágóði af tombólu sem þær héldu fyrir utan Nóatún í Hamraborg. Stelpurnar sögðust staðráðnar í að safna meiru fyrir Rauða krossinn, til dæmis með því að syngja fyrir fólk. Þær sögðust vera heppnar að búa á Íslandi því hér væri aldrei stríð. Auk þess sögðust þær vera búnar að sverja upp á æru sína og trú að vera vinkonur um aldur og ævi og rífast aldrei. Sögðust þær trúa því að sú sem sliti vinaeiðinn yrði fyrir eldingu.

Hjörtur, Unnur og Agnes.
Tveir hópar af vinum sem allir búa í Álfatúni í Kópavogi söfnuðu flöskum til styrktar Rauða krossi Íslands. Íbúar í hverfinu tóku vel á móti krökkunum sem bönkuðu upp á og söfnuðu drykkjarílátum fyrir andvirði samtals 8.501 krónur. Þetta voru annars vegar Hjörtur Ingason, Agnes Ársælsdóttir og Unnur Eiðsdóttir. Hinn hópurinn taldi einnig Hjört sem og Bjarnar Pétursson og Örvar Svavarsson.

Hjörtur, Örvar og Bjarnar.
Krakkarnir fengu góðar móttökur í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og fræddust um hvernig söfnunarféð nýtist börnum í neyð í gegnum verkefni Rauða krossins erlendis. Með því að smella á myndirnar sjást þær í stærri upplausn.