Ungir innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur

2. feb. 2006

Sjálfboðaliðarnir Helena og Freyja með Antoni og Irfan í ráðhúsinu.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fóru í gær með unga innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur. Krakkarnir þurftu að finna Austurvöll, Arnarhól, útitaflið, Bæjarins bestu og svara spurningum á hverjum stað.

Á Austurvelli fannst 10 ára dömu ekki nóg að svara því hvaða dag Jón Sigurðsson ætti afmæli heldur bætti því við að hann væri fæddur 1811. Endastöðin hjá öllum var við stóra kortið af Íslandi í ráðhúsinu.

Sjálfboðaliðarnir settust síðan niður með krökkunum á Ráðhúskaffi þar sem heitt súkkulaði var á boðstólnum.

Starf Kópavogsdeildar með ungum innflytjendum miðar að því að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er í samvinnu við móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og fá meðal annars málörvun og fræðslu um tómstundastarf í gegnum kynningarstarf og vettvangsferðir.