Ungum innflytjendum boðið í Þjóðleikhúsið

20. feb. 2006

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fóru með unga innflytjendur í Þjóðleikhúsið um helgina að sjá sýninguna Klaufar og kóngsdætur. Þjóðleikhúsið bauð hópnum á sýninguna í kjölfar kynningarferðar í leikhúsið sem sjálfboðaliðar deildarinnar skipulögðu fyrir unga innflytjendur í síðustu viku.

Í kynningarferðinni fengu krakkarnir að skoða leikhúsið og fræðast um starfsemi þess. Hluti af krökkunum hafði ekki farið í leikhús áður og var því að kynnast leikhúsmenningu í fyrsta sinn. Á sýningunni skemmti hópurinn sér vel enda litrík og skemmtileg uppfærsla á sígildum ævintýrum eftir H.C. Andersen.

Starf Kópavogsdeildar með ungum innflytjendum miðar að því að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er í samvinnu við móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og fá meðal annars málörvun og fræðslu um tómstundastarf í gegnum kynningarstarf og vettvangsferðir.