Mikill áhugi á starfi Rauða krossins

24. feb. 2006

Í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar sagði Sólveig Ólafsdóttir nemendum úr MK frá þróunar- og hjálparstarfi Rauða krossins.

Fjölbreytt kynning á starfi Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur að undanförnu átt sér stað innan skólastarfs í Kópavogi á grunn- og framhaldsskólastigi.

Fulltrúar í nemendaráðum allra grunnskóla Kópavogs fengu kynningu á Rauða krossinum á sameiginlegum starfsdegi nemendaráða í félagsmiðstöðinni Ekkó. Nemendurnir voru vaktir til umhugsunar um gildi þess að vera sjálfboðaliði og hvaða verkefnum ungmenni geta sinnt innan Kópavogsdeildar Rauða krossins.

Öllum 8. bekkjum grunnskóla Kópavogs stendur til boða að fá sérstaka fræðslu um Rauða krossinn á skólatíma og hafa nokkrir skólar óskað eftir því nú þegar.

Í tveimur áföngum í Menntaskólanum í Kópavogi hefur á einni viku verið kynning á Rauða krossinum og er þar ómeðtalinn áfanginn um sjálfboðið starf þar sem nemendur taka þátt í sjálfboðaverkefnum á  vegum Kópavogsdeilar og fá ýmsa fræðslu um Rauða krossinn.

Sólveig Ólafsdóttir, sviðsstjóri útbreiðslusviðs Rauða kross Íslands, fræddi nemendur í félagsfræði þróunarlanda um þróunar- og hjálparstarf Rauða krossins og sagði frá verkefnum Rauða kross Íslands í Afríku og þátttöku í aðstoð eftir jarðskjálftana í Kasmírhéraði á síðasta ári.

Í þroskasálfræði fengu nemendur heimsókn frá Pálínu Jónsdóttur, heimsóknavini, og Fanneyju Karlsdóttur, framkvæmdastjóra Kópavogsdeildar. Þær fjölluðu um öldrun út frá aðstoð sjálfboðaliða með heimsóknum til aldraðra. Pálína sagði einnig frá sinni reynslu af því að vera komin á efri ár en vera enn mjög virk sem sjálfboðaliði og almennur borgari.