Formaður endurkjörinn og þrír nýliðar í stjórn

9. mar. 2006

Garðar H. Guðjónsson var endurkjörinn formaður deildarinnar á aðalfundi.
Garðar H. Guðjónsson var endurkjörinn formaður Kópavogsdeildar til tveggja ára á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í gær. Þrjár breytingar urðu á skipan stjórnar og varastjórnar. Guðmundur Freyr Sveinsson stjórnmálafræðingur og Hjördís Einarsdóttir mannfræðingur voru kjörin í stjórn í stað Guðbjargar Sveinsdóttur geðhjúkrunar-fræðings og Guðmundar K. Einarssonar verslunarmanns sem gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Sigríður María Tómasdóttir fræðslufulltrúi kom ný í varastjórn í stað Ölfu Kristjánsdóttur sem gaf ekki kost á sér.

Guðbjörg og Guðmundur hafa starfað ötullega fyrir Kópavogsdeild á undanförnum árum og færði formaður þeim bestu þakkir fyrir gott starf og ánægjulegt samstarf. Þau hyggjast bæði halda áfram að gegna sjálfboðnu starfi fyrir deildina þótt þau hverfi úr stjórn.

Guðmundur hafði starfað lengst núverandi stjórnarmanna fyrir fundinn í gær eða síðan 1999. Hann hefur lengst af gegnt embætti gjaldkera en tekur nú við embætti skoðunarmanns reikninga ásamt Kristínu Jónsdóttur. Gísli Krogh gaf ekki kost á sér í það embætti áfram.

Stjórn Kópavogsdeildar er nú þannig skipuð: Garðar H. Guðjónsson formaður, Reynir Kristinsson, Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir, Hjörtur Þór Hauksson, Rúna H. Hilmarsdóttir, Guðmundur Freyr Sveinsson og Hjördís Einarsdóttir. Í varastjórn eru: Hildur Tryggvadóttir, Þórhallur Matthíasson, Rannveig Klara Matthíasdóttir og Sigríður María Tómasdóttir. Stjórn skiptir með sér verkum á næsta fundi.