Ört vaxandi sjálfboðið starf í Kópavogsdeild

10. mar. 2006

Sjálfboðaliðar og ungir innflytjendur 
fengu sér á dögunum sænskar bolludagsbollur sem einn sjálfboðaliði bakaði.

Sjálfboðið starf á vegum Kópavogs-deildar hefur farið ört vaxandi á undanförnum misserum. Heimsóknir í sjálfboðamiðstöðina í Hamraborg 11 voru mun fleiri á síðasta ári en árið á undan og samningsbundnum sjálfboða-liðum fjölgaði mjög milli áranna 2004 og 2005. Þetta kemur fram í ítarlegri ársskýrslu sem kynnt var á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í vikunni. Skýrsluna má nálgast sem pdf-skjal hér á vefnum.

Í ársskýrslunni kemur fram að 110 sjálfboðaliðar störfuðu á vegum Kópavogsdeildar um síðastliðin áramót. Þar af voru 95 samningsbundnir en samningsbundnir sjálfboðaliðar voru 78 í lok árs 2004. Fram kom í máli formanns á fundinum að þeir eru nú 107 talsins.

Heimsóknavinir eru stærsti einstaki hópur sjálfboðaliða. Þeir voru 37 um síðustu áramót en eru nú orðnir vel á fimmta tuginn. Talsverður fjöldi sjálfboðaliða starfar einnig í athvarfinu Dvöl, í starfi með ungum innflytjendum, í verkefninu Föt sem framlag, við neyðarvarnir, stjórnun og önnur verkefni deildarinnar.

Auk þess tóku alls 66 barnungir sjálfboðaliðar í Kópavogi sig saman um að safna fé með tombólum og fleiri skemmtilegum aðferðum og færa deildinni. Þannig söfnuðust alls um 77 þúsund krónur sem varið var til að aðstoða börn í Sri Lanka.

Framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar og forstöðumaður sjálfboðamiðstöðvarinnar í Hamraborg 11 er Fanney Karlsdóttir. Þeir sem vilja kynna sér möguleika á sjálfboðnu starfi á vegum deildarinnar eru beðnir að snúa sér til hennar í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is. Upplýsingar um sjálfboðið starf deildarinnar er einnig að finna hér til hliðar.