Sjálfboðaliðar fögnuðu sumri saman

2. jún. 2006

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar mættu í grilveisluna í Dvöl.

Um síðustu helgi var blásið til grillveislu fyrir sjálfboðaliða Kópavogsdeildar. Veislan var haldin í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, sem er staðsett á afar skjólgóðum og fallegum stað í Reynihvammi 43.

Sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum komu saman og fögnuðu sumri enda við hæfi þar sem hluti sjálfboðaliðanna tekur sér frí frá störfum yfir sumartímann. Veislan var því fínn endir á mjög farsælu vetrarstarfi.

Hátt í 50 manns mættu í veisluna og eftir að hafa gætt sér á grillmat tóku margir þeirra þátt í fjöldasöng við undirleik á tvo gítara.

Kópavogsdeild þakkar sjálfboðaliðum sínum kærlega fyrir veturinn og hlakkar til að sjá þá aftur eftir sumarfrí ásamt nýjum sjálfboðaliðum sem ávallt er þörf fyrir.

Í sumar verður opið í Dvöl alla virka daga kl. 9-15 nema fimmtudaga kl. 10-15. Sjálfboðaliðar halda aftur opnu á laugardögum kl. 13-16 f.o.m. haustinu.