Sjálfboðaliðar fjölmenntu á Litlu hryllingsbúðina

16. jún. 2006

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu söngleikinn Litla hryllingsbúðin í gær í boði Íslensku óperunnar. Sýningin, sem er sviðsett af Leikfélagi Akureyrar, er sýnd í Reykjavík um þessar mundir og er kraftmikil og fjörug enda um sígildan rokksöngleik að ræða. Áhugasamir eru hiklaust hvattir til að skella sér á söngleikinn á meðan færi gefst en sýningardagar eru áætlaðir út júní.

Sýningin er tilnefnd til nokkurra verðlauna Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna, sem afhent verða í dag, þ.á.m. sem besta sýningin að mati áhorfenda. Nánari upplýsingar um sýninguna eru hér.

Kópavogsdeild þakkar Íslensku óperunni kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna óeigingjarnt starf sem er íslensku samfélagi afar dýrmætt. Starf sjálfboðaliðanna skilar árangri og veitir þeim ánægju sem njóta aðstoðar þeirra. Sú ánægja er gagnkvæm. Kópavogsdeild leitast við að skapa sjálfboðaliðum sínum áhugaverð störf og umbuna þeim m.a. með skemmtilegum uppákomum með reglulegu millibili. Sífellt er þörf fyrir fleiri sjálfboðaliða til að sinna fjölbreyttum verkefnum og þeir sem vilja taka þátt í gefandi starfi geta haft samband við deildina með því að hringja í síma 554 6626 eða senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is.