Vinkonur söfnuðu fyrir börn í neyð

18. ágú. 2006

Þuríður Simona og Herdís Brá komu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með ágóðann af söfnun sinni.

Vinkonurnar Herdís Brá Jónsdóttir og Þuríður Simona Hilmarsdóttir söfnuðu flöskum og dósum að andvirði 8.442 kr. og færðu Kópavogsdeild Rauða krossins. Í söfnuninni nutu stelpurnar dyggrar aðstoðar nágranna sinna í Smárahverfi auk vina og vandamanna.

Söfnunarfé stelpnanna mun styrkja börn í neyð í gegnum verkefni Rauða krossins erlendis. Stelpurnar sögðust ætla að halda áfram að safna fyrir Rauða krossinn og lýstu yfir áhuga á að taka þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs sem verður laugardaginn 9. september. Í Göngum til góðs er tilvalið fyrir ungmenni að fá foreldrana til liðs við sig og ganga með sérmerkta söfnunarbauka Rauða krossins um hverfi Kópavogs.

Í landssöfnuninni Göngum til góðs verður safnað fyrir börn í sunnanverðri Afríku sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis. Kópavogsdeild Rauða krossins stýrir söfnuninni í Kópavogi og ein söfnunarstöðin verður sjálfboðamiðstöðin í Hamraborg 11.