Sungið, spilað og galdrað á vorgleði sjálfboðaliða

12. jún. 2012

[Mynd 2]Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu laugardaginn 9. júní í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðar deildarinnar fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja.

Gestirnir nutu veðurblíðunnar saman yfir grillmat og öðrum veitingum. Mikil gleði var meðal þátttakenda sem sungu undir harmonikkuleik Þorleifs Finnssonar. Börnin fengu andlitsmálun og töframaðurinn Daníel Örn sýndi stórskemmtileg töfrabrögð.

Vorgleðin er haldin árlega og er eins konar uppskeruhátíð sjálfboðaliða deildarinnar þar sem markmiðið er að fagna starfsvetrinum og gleðjast saman í upphafi sumars. Deildin metur mikils framlag sjálfboðaliða sinna og þakkar þeim fyrir vel unnin sjálfboðin störf í vetur.