Garmarnir gefa gömlum flíkum nýtt líf

14. jún. 2012

Verslanir Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu munu vera í samstarfi með tveimur ungum listakonum í sumar.

Rakel Jónsdóttir fatahönnunarnemi og Þyri Huld Árnadóttir dansari standa fyrir verkefni sem þær kalla Garmarnir. Þessar ungu konur fengu styrk frá Hinu húsinutil að vinna skapandi störf í sumar.

Þegar litið er yfir það sem þær munu bjóða upp á þá má segja að það sé margt spennandi á döfinni og um að gera að skella sér í miðbæ Reykjavíkur á föstudögum sem og aðra daga, sjá uppákomurnar og einnig að fylgjast með þeim „endursköpuðu“ flíkum sem boðið verður upp á í verslunum Rauða krossins í sumar.

Stutt kynning frá þeim stöllum sjálfum; „Garmarnir gefa gömlum flíkum nýtt líf i samstarfi við Rauða krossinn og Skapandi sumarstörf. Víðsvegar um bæinn er að finna Rauðakrossbúðir, þessar búðir vinna göfugt starf fyrir samfélagið með því að selja gömul föt. Við viljum leggja okkar framlag og listrænu þekkingu til að koma nýju lífi inn í búðirnar. Fá að breyta gömlum fötum í hágæða tískuvöru. Við höfum báðar í mörg ár verið fastir gestir í þessum búðum til að kaupa okkur ódýrar flíkur sem við klippum til og saumum  og gefum nýtt líf. Markmiðið er að hvetja fólk til að endurvinna fötin sín og gefa þau til góðgerðastarfs en ekki henda þeim í ruslið sem margir því miður gera. Tengja saman tvær listgreinar sem eru dans og fatahönnun og búa til fallega listræna heild með hjálp skapandi sumarstarfs og Rauðakrossinum.“

Á hverjum föstudegi verða svokölluð Föstudagsfiðrildi þar sem um mismunandi uppákomur er að ræða í miðbæ Reykjavíkur tengdum verslunum Rauða krossins.

Hér er hægt að fylgjast með dagskránni ;
http://hitthusid.is/desktopdefault.aspx/tabid-569/1304_read-7643/1447_view-794/

Heimasíða varðandi verkefnið
http://www.wix.com/thyrihuld/garmarnir