Sumarferð í Hvalfjörð og listaverk í mótun

18. jún. 2012

Í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, hefur sumarið borið með sér mikla gleði. Þriðjudaginn 12. júní var farið í ferð um Hvalfjörðinn og á Skagann. Í Hvalfirði var stoppað í ríki Gauja litla á Hlöðum og hernámssafnið skoðað. Gaui litli tók á móti okkur og sýndi okkur staðinn og þar borðuðum við hádegismat. Frá Hlöðum lá leiðin á Skagann og var safnasvæðið á Akranesi skoðað í krók og kima. Á safnasvæðinu eru nokkur söfn þar á meðal íþróttasafn, steinasafn og minjasafn.  Margt að skoða og upplifa. 

Við heimkomuna, endurnærð eftir skemmtilegan dag, tókum við til að hlúa að umhverfi okkar og prjónuðum utan á trén í garðinum. Þetta er listaverk í mótum og aldrei að vita hvert það tekur okkur.  Sumarið hefur stimplað sig vel inn á Dvöl og þar er sól úti og sól inn og sól í sinni.