Viltu gefa gæðastund?

20. ágú. 2012

Þann 30. ágúst næstkomandi kl. 18-20.30  verður haldið námskeið fyrir verðandi heimsóknavini ef næg þátttaka næst. Hægt er að skrá sig á námskeiðið hér en námskeiðið verður haldið á Landsskrifstofu Rauða krossins í Efstaleiti 9.

Heimsóknir sjálfboðaliða til fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun eru eitt af umfangsmestu verkefnum Kópavogsdeildar og heimsóknavinir á vegum deildarinnar sinna nú verkefnum á ýmsum stöðum í Kópavogi.

Hlutverk heimsóknavina er fyrst og fremst að veita félagsskap og hlýju. Þeir heimsækja fólk sem býr við ýmsar aðstæður og er á öllum aldri. Sumir eru einstæðingar, aðrir eru veikir og komast lítið út og enn aðra vantar tilbreytingu í dagana sína þar sem þeir eru mikið einir yfir daginn. Heimsóknavinir sjá einnig um söngstundir og aðra afþreyingu fyrir unga sem aldna á stofnunum.

Heimsóknavinir heimsækja fólk í heimahúsum og veita því félagsskap með því að spila, spjalla og fara í göngu- eða ökuferðir, svo eitthvað sé nefnt. Heimsóknavinir heimsækja heimilisfólk á hjúkrunarheimilum og athvörfum. Auk þess má geta að sjálfboðaliðar heimsækja reglulega stofnanir og heimili með hundana sína en Kópavogsdeild var fyrst deilda innan Rauða krossins til að hefja notkun hunda í heimsóknaþjónustu.

Flestir heimsóknavinir starfa í hverri viku, klukkustund í senn og gangast þarf undir heimsóknavinanámskeið áður en hægt er að hefja störf. Þeir sem hafa áhuga að fá heimsókn til sín er bent á að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með því að senda tölvupóst á [email protected]