Sjálfboðaliðar fjölmenna í Prjónakaffi

29. ágú. 2012

Í dag var haldið fyrsta prjónakaffi eftir sumarfrí í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi en það er jafnan haldið síðasta miðvikudag hvers mánaðar frá kl. 15-18. Prjónaglaðir sjálfboðaliðar fjölmenntu líkt og vanalega og komu með prjónaflíkur sem þeir höfðu unnið að frá því í vor. Í leiðinni fengu þeir meira garn til að halda áfram að prjóna. Svo var boðið upp á kaffi og meðlæti og áttu sjálfboðaliðarnir ánægjulega stund saman.

Prjónahópurinn tilheyrir verkefninu Föt sem framlag og prjónar, heklar og saumar ungbarnaföt sem send eru til fjölskyldna og barna í neyð bæði í  Afríkuríkinu Malaví og Hvíta Rússlandi. Sjálfboðaliðarnir útbúa pakka með fötunum en í þá fer prjónuð peysa, teppi, sokkar, húfa og bleyjubuxur ásamt handklæði, buxum og samfellum. Rauði krossinn í Kópavogi sendir alla jafna hundruði pakka á ári hverju og nú þegar eru þeir orðnir 346 en fleiri pakkar verða útbúnir í október næstkomandi.

Þeir sem vilja styrkja verkefni með garnafgöngum er bent á að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]. Allir afgangar eru virkilega vel þegnir.