Mikil stemning þegar alþjóðlegir foreldrar hittast vikulega í Kópavogi

13. sep. 2012

Vikulegar samverur alþjóðlegra foreldra eru hafnar á ný og margt spennandi í boði  á haustmánuðum. Alþjóðlegir foreldrar er hópur íslenskra og erlendra foreldra sem hittist alla fimmtudaga kl. 10-12 í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi með börnin sín á aldrinum 0-6 ára. Á samverum er reglulega boðið upp á ýmiss konar fræðslu sem tengist börnum eða innflytjendum á Íslandi. Leikföng fyrir börnin eru á staðnum og léttar veitingar í boði. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun foreldra af erlendum uppruna.

Á haustmánuðum er áfram stefnt að því að fá spennandi kynningar og fræðslu fyrir hópinn. Í ár hafa Alþjóðlegir foreldrar meðal annars fengið fræðslu um holla næringu fyrir börn, fyrirlestur um málþroska tvítyngdra barna og svefnráðgjöf barna frá Landspítalanum, kynningu á þroskaleikföngum og heimsókn frá Tónagulli þar sem foreldrarnir fengu fræðslu um tónlistaruppeldi.  Á haustmánuðum mun vera boðið upp á kynningar frá Fiðrildinu, verslun með notuð barna- og meðgönguföt, Sundspretti, sundskóla fyrir börn frá 4-8 ára, kynningu frá W.O.M.E.N, Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og margt margt fleira. Vegna fjölda áskoranna var ákveðið að fjölga „a taste from home“ samverum en þá koma allir með spennandi rétt frá sínu heimalandi. Mikil stemning myndast allajafnan þegar húsið fyllist af matarlykt frá öllum heimsins hornum. Þess á milli á hópurinn notalegar samverur þar sem þátttakendur fá tækifæri til þess að kynnast og mynda tengsl við foreldra í sömu sporum. Hópurinn sem hittist vikulega er mjög fjölmennur og af fjölbreyttum uppruna líkt og Bretlandi, Íslandi, Spáni, Póllandi, Svíþjóð, Þýskalandi, Jamaika, Bandaríkjunum, Kenía, Úganda, Portúgal og Kanada svo eitthvað sé nefnt.

Ef þú hefur áhuga á því að taka þátt í verkefninu eða fá nánari upplýsingar um það vinsamlegast hafðu samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.