Mikil þátttaka í landssöfnun Rauða krossins Göngum til góðs til styrktar börnum í neyð

8. okt. 2012

Mikil stemning skapaðist í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg síðastliðinn laugardag þegar Rauði krossinn í Kópavogi tók þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs.  Stefnt var að því að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum en það munaði afar litlu að það metnaðarfulla markmið næðist. Mikill fjöldi sjálfboðaliða tók þátt í söfnuninni en rúmlega 200 manns gengu með bauka í hús í Kópavogi eða söfnuðu á fjölförnum stöðum. Söfnunarfénu í ár verður varið í alþjóðleg verkefni á vegum Rauða krossins fyrir börn í neyð í nokkrum löndum, svo sem í Sómalíu, Hvíta-Rússlandi, Palestínu, Malaví og á Haíti. Fyrstu tölur sýna að í ár safnaðist rúmlega hálfri milljón meira í Kópavogi en í síðustu Göngum til góðs söfnun árið 2010.

Rauði krossinn í Kópavogi færir öllum þeim sem gengu til góðs, mönnuðu söfnunarstöðvar, settu peninga í söfnunarbauka, lögðu inn á reikning, hringdu í 904 1500, 904 3000, 904 5000 eða studdu söfnunina með einum eða öðrum hætti bestu þakkir.