Vegleg gjöf frá sjálfboðaliðum í Sunnuhlíð

8. nóv. 2012

Heimilisfólk á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð gáfu Rauða krossinum í Kópavogi veglega gjöf í vikunni sem leið, eða70 prjónuð teppi. Boðið er upp á prjón í virknistundum á heimilinu og hafa sjálfboðaliðarnir unnið að þessari gjöf allt árið. Allt garn sem notað var í teppin var fengið gefins en afgangsgarn er gjarnan nýtt í þessi teppi svo úr verður litríkt prjónaverk. Teppin verða nýtt í verkefnið Föt sem framlag sem miðar að því að vinna flíkur í þar til gerða ungbarnapakka. 7. nóvember fór fram pökkun í húsnæði Rauða krossins í Kópavogi þar sem ungbarnapakkarnir voru útbúnir og síðan sendir til Hvíta-Rússlands til barna og fjölskyldna í neyð. Rauði krossinn í Kópavogi er afar þakklátur heimilisfólkinu í Sunnuhlíð fyrir sitt framlag í þetta verðuga verkefni og nýtti tækifærið þegar teppin voru afhent til að kynna verkefnið í myndum og máli.

Fjölmargir  aðrir sjálfboðaliðar sinna verkefninu Föt sem framlag og prjóna, sauma og hekla föt sem send eru erlendis til barna í neyð. Hópurinn hittist einu sinni í mánuði í húsnæði Rauða krossins í Kópavogi, Hamraborg 11. Þeir sem hafa áhuga á að slást í hópinn geta haft samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.

Deildin tekur glöð á móti garnafgöngum í verkefnið og þeir sem vilja gefa garn geta einnig haft samband við deildina.