List til styrktar Rauða krossinum

15. mar. 2011

Verk eftir fjórar listakonur sem gefið hafa  verk sín styrktar Hjálparsjóði Rauða krossins eru nú til sölu hjá Gallerí Fold. Um er að ræða verk eftir hinar hæfileikaríku listakonur Fríðu Gísladóttur (nafn verks: Mjólk sem sjór, verð 70.000), Hrafnhildi Ingu Sigurðardóttur (nafn verks: Eyðibýlið, verð 80.000) Laufey Johansen (nafn verks: Áhrif frá Vúlkan, verð 110.000) og Sesselju Tómasdóttur (nafn verks: Kærleikurinn, verð: 50.000).

Hægt er að skoða verkin á vefsíðu Gallerí Foldar - smella á "Listamenn" og síðan á umræddar listakonur. Fyrrnefnd verk eru merkt - Til styrktar RKÍ. Að sjálsögðu er hægt að fara á staðinn og skoða verkin þar. Gallerí Fold er til húsa á Rauðarárstíg 12-14 í Reykjavík.

Dæmi um verkefni sem fjármögnuð eru úr Hjálparsjóði: Hjálp til sjálfshjálpar

Hjá Rauða krossinum felst allt okkar starf í því að styðja heimamenn til að hjálpa á heimavelli. Félög Rauða krossins eða Rauða hálfmánans eru til í 186 löndum, og hvert þessara félaga er með deildir sem byggja á starfi sjálfboðaliða í grasrótinni.

Langflestir skjólstæðingar okkar eru börn og  ungmenni í fátækustu löndum Afríku. Í Malaví styðjum við meðal annars munaðarlaus börn til framfærslu og mennta. Börnin eru ekki tekin úr umhverfi sínu heldur er þeim gefinn kostur á að alast upp í þorpinu sínu. Máltíðin sem þau fá hjá Rauða krossinum er eina máltíð dagsins hjá sumum þeirra.

Í Mósambík njóta fátækir þorpsbúar í sunnanverðu landinu heilsugæslu sem þeir hefðu ekki haft nema vegna aðstoðarinnar frá Íslandi. Yfirsetukonur í hverju þorpi huga að heilbrigði þorpsbúa, aðstoða konur við barnsburð og vara við því að óvarið kynlíf geti verið lífshættulegt vegna alnæmisveirunnar.

Í Sierra Leone styðjum við ungmenni til mennta eftir þátttöku í borgarastyrjöldinni sem var í landinu. Strákarnir voru margir barnahermenn og stúlkurnar teknar sem kynlífsambáttir. Eitt ár í endurmenntunarstöðvum Rauða krossins eru það tækifæri sem þau fá í lífinu.

Í Palestínu sýna rannsóknir að börn á aldrinum 10 – 12 ára sem fá sálrænan stuðning, sem Rauði kross Íslands styður, eru bæði jákvæðari, glaðværari og reiðubúnari að treysta öðrum heldur en þau voru áður.