Fatasöfnun Rauða krossins nú um helgina 25.-26. maí

21. maí 2013

Þessa dagana sendir Rauði krossinn frá sér sérmerkta fatapoka á öll heimili í landinu sem eru kjörnir fyrir vortiltekt í fataskápum landsmanna. Þetta er liður í árlegu fatasöfnunarátaki Rauða krossins og Eimskips helgina 25.-26. maí. Pósturinn styður verkefnið með því að dreifa pokunum endurgjaldslaust um allt land.

Rauði krossinn hvetur fólk til að taka til gömul föt og vefnaðarvöru og koma þeim í endurvinnslu. Til að létta undir með fólki við vorhreingerningar verður gámum komið fyrir við allar sundlaugar ÍTR í Reykjavík og við sundstaði í Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Garðabæ og Álftanesi. Það er því kjörið að skella sér í sund að lokinni tiltekt.  

Á landsbyggðinni er tekið á móti fötum á móttökustöðvum Eimskips Flytjanda og í merktum fatagámum Rauða krossins um allt land.

Athugið að söfnunin er aðeins um helgina við sundstaðina, en hægt er að gefa fatnað og klæði allan ársins hring í söfnunargáma Rauða krossins um allt land, og á Endurvinnslustöðvum Sorpu og grenndarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er í fjórða sinn sem Rauða krossins og Eimskip ráðast í fatasöfnunarátak að vorlagi með því að setja upp sérstaka söfnunargáma við sundstaði á höfuðborgarsvæðinu. Eimskip er öflugasti stuðningsaðili fatasöfnunarverkefnis Rauða krossins og annast flutninga innanlands án endurgjalds og utan á afar hagstæðum kjörum.