Ungir gestir komu færandi hendi

24. jan. 2014

Í leikskólanum Læk, sem staðsettur er í Kópavogsdal, fer fram mikið og gott starf með frábærum börnum, sem vilja láta gott af sér leiða.

Árinu í leikskólanum er skipt í fjóra hluta þar sem unnið er með eina höfuðdyggð í hverjum hluta. Núna eru þau að vinna eftir dyggðinni SAMKENND. Hluti af því er að í vikunni 12. janúar til 19. janúar var svokölluð Góðverkavika og sýndi þá hvert barn samkennd með því að gefa eina flík af sjálfu sér til að láta renna til Fatasöfnunar Rauða krossins.

Börnin komu síðan með kennurum sínum hingað í Rauða krossinn í Kópavogi fimmtudaginn 23. janúar og afhentu það sem safnast hafði. Það var mikið gaman að taka á móti þessum flotta 100 barna hóp, sem skipt var í fjóra hópa svo allir kæmust inn. Börnin fengu stutta fræðslu um Rauða krossinn og hvað gert er með þau föt sem gefin eru.

Einnig gæddu þau sér á eplum og spurðu hinna ýmsu spurninga. Einn drengjana vildi vita hvort hann gæti gefið sokk sem hann á og er með gati. Þetta var mjög góð spurning þar sem það er um að gera að gefa fatnað þó hann sé ekki heill, því unnt er að nýta efnið og stuðla þannig að endurvinnslu. Hann ætlaði að nota hann aðeins lengur þar til gatið væri orðið svolítið stærra.

Þökkum við börnunum og kennurum þeirra kærlega fyrir komuna og þau föt sem gefin voru.