Gunnlaug er sjálfboðaliði í fatabúð

18. mar. 2014

Upphaf þess að ég gerðist sjálfboðaliði var þannig að ég var nýlega komin á eftirlaun og sá auglýsingu í blaði eftir sjálfboðaliðum til að koma í prjónahóp hjá Rauða krossinum í Hamraborg í Kópavogi. Þar sem mér fannst mig vanta eitthvað skemmtilegt að gera fór ég þangað og sat og prjónaði barnapeysur einu sinni í viku. Síðan var ég skráð félagsmaður og þá var ég spurð hvort ég gæti hugsað mér að gera eitthvað annað fyrir Rauða krossinn.

Ég sagðist kannski vilja vinna í búðunum og nokkrum mánuðum seinna var hringt í mig og mér boðin vinna einu sinni í viku í búðinni á Hlemmi.  Ég byrjaði snemma árs 2011 og var fyrst aðallega á Hlemmi og svo í Mjódd. Seinna fékk ég svo að vera fast í Mjóddinni. Mér finnst mjög ánægjulegt að geta orðið að liði með þessari vinnu og svo hef ég kynnst mörgum frábærum konum sem einnig vinna hér.

Ég vil bara hvetja fólk sem af einhverjum ástæðum er ekki í vinnu en hefur næga starfsorku til að bjóða sig fram hjá Rauða krossinum, maður kemst út á meðal fólks og svo er þetta gefandi og skemmtilegt.

Gunnlaug Ólafsdóttir sjálfboðaliði í fatabúð Rauða krossins í Mjódd.