Auður er sjálfboðaliði í fatabúð

26. mar. 2014

Ég er búin að vera sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum í nokkur ár og er að vinna í fataversluninni í Hafnarfirði tvisvar í viku. Ég hafði nokkuð lengi velt því fyrir mér hvað ég gæti gert til að leggja eitthvað af mörkum til að hjálpa fólki sem þarf á því að halda, því það er svo mikil neyð í heiminum. Ég veit að Rauði krossinn kemur að allskonar hjálparstarfi og nýtur mikillar virðingar um allan heim. Því datt mér í hug að þar sem ég hafði tíma þá gæti ég notað hann í þágu Rauða krossins svo að ég gerðist sjálfboðaliði.

Þetta hefur verið skemmtilegur tími og starfið er fjölbreytt og hefur gefið mér mikið. Ég hef kynnst skemmtilegu fólki, bæði sjálfboðaliðum og viðskiptavinum í versluninni sem mér  finnst gaman að spjalla við. Ég hef einnig tekið þátt í verkefninu Föt sem framlag þar sem sjálfboðaliðar koma saman og prjóna og hekla ungbarnafatnað sem síðan er sendur til Hvíta Rússlands.

Mitt framlag er að hekla barnateppi  og því sit ég fyrir framan sjónvarpið á kvöldin og hekla teppi handa nýfæddum börnum í Hvíta Rússlandi.  Það hlýjar mér um hjartaræturnar að koma að gagni og mér finnst ég vera mikilvægur hlekkur í keðjunni.