• _SOS8329-Edit

Aðalfundur Rauða krossins í Kópavogi

17. mar. 2015

Aðalfundur Rauða krossins í Kópavogi var haldinn þann 12. mars 2015. Fundurinn var þægilegur og skemmtilegur en hefði mátt vera fjölmennari. Þó ber að hafa skilning á því að fólk veigri sér við að fara mikið á milli húsa, enda var færðin með versta móti, slabb og klaki yfir bílastæðum og öðru. Ársskýrsla deildarinnar var kynnt og má lesa hana hér.

Sérstakir gestir á fundinum voru Víðir Reynisson frá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra og Jón Brynjar Birgisson frá Neyðarmiðstöð Rauða krossins. Víðir fjallaði um ferlið hjá almannavörnum varðandi Bárðarbungu og Holuhraunsgosið og hver næstu skref yrðu hjá viðbragðsaðilum. Jón Brynjar sagði frá hlutverki Rauða krossins í neyðarvörnum og sér í lagi ef opna þyrfti stóra fjöldahjálparstöð á höfuðborgarsvæðinu, en þar hefði Rauði krossinn í Kópavogi veigamikið hlutverk.

Kjörnefnd kynnti frambjóðendur í stjórn og þar sem ekki komu mótframboð voru tillögur þeirra samþykktar og nýtt fólk boðið velkomið. Í aðalstjórn var Ingibjörg Bjartmarz endurkjörin til tveggja ára, Birgir Magnússon lögmaður var kjörinn nýr inn í stjórn til tveggja ára en hann hefur verið fulltrúi deildarinnar í stjórn Sunnuhlíðar. Í varastjórn til eins árs voru kjörin Helga Jörgensen og Gaukur Steinn Guðmundsson en hvorugt hefur setið í stjórn hjá Rauða krossinum áður. Kjörnefnd gætti vel að bæði aldurs og kynjadreifingu en á milli Helgu og Gauks eru ein 60 ár.

Hermann Ottóson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, sat fundinn og tók til máls þar sem hann sagði Rauða krossinn í Kópavogi vera stekra deild og sérlega öfluga í Heimsóknavinaverkefnum og væri þar til fyrirmyndar. Hann tók undir orð Davids formanns að hlutverk deildarinnar í Bárðarbunguviðbrögðum væri viðamikið og mikilvægt. Hermann talaði einnig um þá velvild og þakklæti sem ríkir í Hvíta Rússlandi gagnvart konunum sem taka þátt í Föt sem framlag verkefni Rauða krossins, enda væri það sýnilegt í fötunum sem þær sauma og prjóna hversu mikil alúð er lögð í þau handa börnum sem á þurfa að halda.

Fundarstjóri á fundinum var Jóhannes Rúnar Jóhannsson og stýrði hann fundinum af miklum sóma og kann deildin honum þakkir fyrir.

[Mynd 1]
David formaður kveður Katrínu varaformann og þakkar henni innilega fyrir gott samstarf.
[Mynd 2]
David formaður þakkar kjörnefnd fyrir vel unnin störf.
[Mynd 3]
David formaður þakkar Jóhannesi fundarstjóra fyrir góðan fund.
[Mynd 4]
 Víðir ræðir um ferli almannavarna varðandi Bárðarbungu og Holuhraunsgosið.
[Mynd 5]
Jón Brynjar segir frá hlutverki Rauða krossins í neyðarvörnum.
[Mynd 6]
Hermann, framkvæmdastjóri Rauða krossins, ræðir um gott starf Rauða krossins í Kópavogi.