Rauði krossinn í Kópavogi 57 ára

12. maí 2015

Í dag fagnar Rauði krossinn í Kópavogi 57 ára afmæli en deildin var stofnuð 12. maí 1958. Í tilefni dagsins rifjum við stuttlega upp sögu deildarinnar.


Fyrst má rifja upp stórt hlutverk í stofnun Sunnuhlíðar, dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða en það var m.a. stjórn Rauða krossins í Kópavogi sem benti á mikilvægi þess að stofna slíkt heimili í Kópavogi. Deildin veitti mikið fjármagn í byggingu Sunnuhlíðar sem og rekstur heimilisins fyrstu tvo áratugina. Rauði krossinn í Kópavogi hafði aðsetur í Sunnuhlíð allt frá vígslu heimilisins, 1982, þar til hann flutti í núverandi húsnæði árið 2002. Í Sunnuhlíð byrjuðu síðan hinir svokölluðu sjúkravinir sem við þekkjum í dag sem heimsóknavini. Það eru sjálfboðaliðar sem heimsækja félagslega einangrað fólk og veitir þeim vinskap, en heimsóknavinir spila enn stóran sess í starfsemi Sunnuhlíðar.

Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, var opnað 10. október 1998. Rauði krossinn tók þátt í rekstri athvarfisins allt til 2013 þegar Kópavogsbær tók alfarið við rekstrinum. Í dag mæta þó sjálfboðaliðar Rauða krossins í Kópavogi reglulega í Dvöl og taka þátt í félagsstarfinu þar.


Skyndihjálp er eitt af áhersluverkefnum Rauða krossins og Kópavogsdeild hóf kennslu í skyndihjálp árið 1979, fyrst í 12 ára bekkjum í grunnskólum bæjarins. Síðan þá hafa verið haldin regluleg námskeið í skyndihjálp og í fyrra voru skyndihjálparkynningar í öllum grunnskólum bæjarins.

Rauði krossinn í Kópavogi fór af stað með verkefni hönnuð til að rjúfa  félagslega einangrun  innflytjenda. Fyrsta verkefnið fór af stað árið 2004 og enn í dag eru fjölbreytt verkefni sniðin að þörfum  innflytjenda  á vegum Rauða krossins í Kópavogi.

Ef þig langar að taka þátt hafðu þá samband í síma 570 4060 eða á kopavogur@redcross.is. Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Kópavogi eru og hafa verið drifkraftur verkefna okkar í öll þessi ár.

 

[Mynd 1]
Starfsmenn deildarinnar halda upp á daginn.
[Mynd 2]