Viltu leggja Rauða krossinum í Kópavogi lið í stutta stund?

7. okt. 2011

Rauði kross Íslands stendur fyrir sérstakri Rauðakrossviku annað hvert ár í október þar sem athygli er vakin á hreyfingunni og verkefnum hennar. Í Rauðakrossvikunni 17.-22. október næstkomandi leggur Kópavogsdeild áherslu á að fjölga sjálfboðaliðum, félagsmönnum og ekki hvað síst, safna peningum til styrktar starfinu í Kópavogi.

Nú vantar okkur sjálfboðaliða til að vera með söfnunarbauka fyrir utan nokkra fjölfarna staði í bænum dagana 20., 21. og 22. október, hver vakt tekur aðeins tvær klukkustundir. Til að manna vaktir þessa þrjá daga þurfum við um 100 sjálfboðaliða og því er öll aðstoð vel þegin. Þú þarft ekki að vera skráður sjálfboðaliði hjá deildinni til að taka þátt heldur geta allir áhugasamir aðstoðað deildina í þessu verkefni.

Kópavogsdeild þarf stuðning almennings til að halda uppi öflugu starfi og þjónustu í heimabyggð. Vinsamlega hafðu samband við deildina í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is ef þú hefur tök á að leggja okkur lið þessa daga.