Eldhugar heimsækja félagsmiðstöðvar í Kópavogi

14. okt. 2011

Unglingarnir í Eldhugum Kópavogsdeildar hafa unnið að því undanfarið að undirbúa kynningu sem þeir hyggjast fara með inn í hverja félagsmiðstöð í Kópavogi en þær eru alls átta talsins. Fyrsta kynningin fór fram í félagsmiðstöðinni Igló í vikunni og um 40 unglingar úr hverfinu mættu til að heyra hvað hópurinn hafði fram að færa.

Kynningin samanstendur af fræðslu um Rauða krossinn, markmið hans, uppruna og starfsemi bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Þá var farið í skemmtilega leiki með það að markmiði að vekja jafningja til umhugsunar um fordóma og fjölbreytt samfélag. Að lokum dreifðu Eldhugar tímariti sem þeir gáfu út sem býr yfir ýmsum efni sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um fordóma. Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í Rauðakrosshúsinu og vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum leik, ljósmyndun, leiklist og kynningar.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu hjá Kópavogsdeild eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is. Í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg er alltaf heitt á könnunni og leggjum við okkur fram við að taka vel á móti fólki.