Rauða krossinn í Kópavogi: Hvað getur þú gert og hvað getur hann gert fyrir þig?

17. okt. 2011

Í Rauðakrossvikunni 17.-22. október leggur Kópavogsdeild áherslu á að fjölga sjálfboðaliðum, félagsmönnum og ekki hvað síst, safna peningum til styrktar starfinu í Kópavogi. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar verða með söfnunarbauka á fjölförnum stöðum í bænum til að safna fé til styrkar starfinu, að auki verða söfnunarbaukar á nokkrum völdum stöðum í bænum alla vikuna. Kópavogsdeild þarf stuðning bæjarbúa til að halda uppi öflugu starfi og þjónustu í heimabyggð. Það væri okkur mikils virði ef þú gætir lagt okkur lið og um leið hvatt ættingja, vini og vinnufélaga til að gera það sama. Það er hægt að vekja athygli á málstað okkar á fésbók, með tölvupósti, í samtölum og víðar.

Kópavogsdeild rekur Rauðakrosshúsið í Kópavogi í Hamraborg 11, og er það opið alla virka daga kl. 9-15. Stór hópur sjálfboðaliða hefur á síðustu árum lagt deildinni lið í fjölmörgum verkefnum sem snerta bæjarsamfélagið á ýmsan hátt. Í Kópavogsdeild eru yfir 1900 félagsmenn skráðir og er árgjaldið 2000 krónur. En betur má ef duga skal, við getum alltaf bætt við okkur öflugum sjálfboðaliðum og fyrir þá sem ekki hafa tíma aflögu er tilvalið að gerast félagsmaður og styðja þannig við starfið í Kópavogi. Við viljum hvetja alla til að kíkja í heimsókn, hitta starfsfólk og sjálfboðaliða að störfum og með þeim hætti fræðast um verkefnin okkar. Í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg er alltaf heitt á könnunni og leggjum við okkur fram við að taka vel á móti fólki.

Deildin sinnir margvíslegum verkefnum í Kópavogi, svo sem að rjúfa einsemd og félagslega einangrun með heimsóknum til þeirra sem á þurfa að halda, aðstoða bágstaddar fjölskyldur í Kópavogi þegar á reynir, deildin stendur fyrir uppbyggjandi starfi fyrir börn og ungmenni, útbýr fatapakka fyrir börn í neyð og býður reglulega upp á fjölbreytt úrval námskeiða, s.s. Slys og veikindi barna og Skyndihjálp.

Við biðjum þig kæri Kópavogsbúi að leggja okkur lið við þessi mikilvægu verkefni.

Með vinsemd og virðingu
F.h. Kópavogsdeildar
Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir formaður og Linda Ósk Sigurðardóttir framkvæmdastjóri