Viðtal við Dagbjörtu Rós Jónsdóttir, sjálfboðaliða í ungmennastarfi

17. okt. 2011

Dagbjört Rós er 17 ára sjálfboðaliði í Plúsnum og Eldhugum. Hún kynntist fyrst Rauða krossinum þegar hún var sjálf þátttakandi í Eldhugum í 8., 9. og 10. bekk en Eldhugar eru íslensk og erlend ungmenni í Kópavogi á aldrinum 13-16 ára sem vinna saman að því að byggja betra samfélag í takt við hugsjónir Rauða krossins. Dagbjörtu fannst starfið svo skemmtilegt að þegar hún byrjaði í menntaskóla ákvað hún að skrifa undir sjálfboðaliðasamning við deildina. Þannig gat hún haldið áfram í starfi Kópavogsdeildar og gerst sjálfboðaliði í verkefninu. Seinna ákvað hún svo líka að starfa innan Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar fyrir 16-24 ára.

Þegar hún er spurð hvað sjálfboðaliðastarfið gefi henni  svarar hún: „Að vita það að þú sért að hjálpa einhverjum er ofboðslega góð tilfinning. Ég veit ósköp vel að ég er ekkert að breyta heiminum ein og sér en bara það að geta hjálpað einni manneskju og séð þessa einu manneskju brosa. Það breytir kannski ekki heiminum en það breytir kannski degi þessarar manneskju og vonandi til hins betra.“

Dagbjört segir að það skemmtilegasta við sjálfboðna starfið sé að hitta mikið að fólki frá mismunandi stöðum með fjölbreytta reynslu. „Svo er það líka bara fólkið sem ég vinn með í hverri viku. Það fólk er með því yndislegasta og besta fólki sem ég hef hitt á ævi minni“, bætir hún við. Hún lýkur svo viðtalinu með orðunum: „Bros segir meira en þúsund orð, hláturinn lengir lífið og það er betra að gefa en að þiggja.“

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu hjá Kópavogsdeild eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is. Í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg er alltaf heitt á könnunni og leggjum við okkur fram við að taka vel á móti fólki.