Fleiri heimsóknavinir taka til starfa

11. okt. 2006

Kópavogsdeild hélt í kvöld fjölmennt námskeið fyrir sjálfboðaliða í heimsókna-þjónustu. Nýir heimsóknavinir munu því hefja störf á næstunni og heimsækja fólk sem býr við einsemd og félagslega einangrun.

Þátttakendur á undirbúnings-námskeiðinu voru mjög fjölbreyttur hópur fólks, karlar og konur á ýmsum aldri, sem er mjög gott þar sem fólkið sem óskar eftir heimsóknavini er einnig fjölbreyttur hópur. 

Heimsóknavinur veitir félagsskap m.a. með því að spjalla, spila, fara í göngu- eða ökuferðir. Heimsóknir eru að jafnaði einu sinni í viku í klukkustund. Heimsóknavinir Kópavogsdeildar hittast reglulega og fá fjölbreytta fræðslu.

Ef þú hefur áhuga á að gerast heimsóknavinur hafðu þá samband í síma 554 6626 eða á [email protected]. Eins láttu endilega vita ef þú veist um einhvern sem gæti þurft á heimsóknum að halda.

Niðurstöður landskönnunar Rauða kross Íslands, Hvar þrengir að?, sem voru birtar fyrr á þessu ári leiddu í ljós að mikil þörf er fyrir úrræði eins og heimsóknaþjónustu til þess að rjúfa einsemd fólks og bæta aðstæður þeirra sem búa við þrengingar og mótlæti. Niðurstöðurnar styðja útkomu úr sambærilegri staðbundinni könnun sem Kópavogsdeild gerði í Kópavogi árið 2003. Heimsóknaþjónusta er því eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar Rauða krossins og stefnt er að því að efla og þróa þjónustuna enn frekar.