Skemmtilegt og fjölbreytt starf Eldhuga

16. okt. 2006

Í september hófst starf Eldhuga Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands. Eldhugarnir eru ungmenni víðs vegar að úr Kópavogi, íslensk og erlend, sem hittast einu sinni í viku og gera margt skemmtilegt saman. Vinna þeirra miðar að því að byggja betra samfélag og eru hugsjónir Rauða krossins þar í forgrunni.

Í fyrsta tíma var farið í nafnaleik til að hrista af sér feimni og læra nöfn allra í hópnum. Að því loknu skelltu Eldhugar sér í ljósmyndamaraþon ásamt sjálfboðaliðum. Í vikunni þar á eftir kom ljósmyndarinn Anna Skúla og fræddi Eldhuga um ljósmyndun, til dæmis tæknileg atriði við myndatöku og hvernig hægt er að verða ljósmyndari að atvinnu. Þar á eftir var föndrað með myndir Eldhuga sem tengdust þemunum vinátta, íslenskt, útlenskt og Kópavogur.  
 
Þann 5. október fóru Eldhugar í heimsókn á landsskrifstofu Rauða kross Íslands. Heimsóknin er liður í svokölluðum „vegabréfakvöldum“ þar sem Eldhugar fá kynningu á framandi landi frá einhverjum sem hefur dvalið þar eða alist upp. Allir Eldhugar fengu afhend sérlega útbúin, föndruð vegabréf á leiðinni í heimsóknina. Eldhugar nota vegabréfin til að punkta hjá sér það sem þeim finnst áhugavert eða koma á óvart í hverri kynningu fyrir sig. Sólveig Ólafsdóttir tók á móti hópnum,en hún hefur starfað sem sendifulltrúi Rauða krossins í Simbabwe. Kynningin tókst afar vel og Eldhugum fannst sérstaklega gaman að sjá myndir frá landinu og af íbúum. Hátt hlutfall fólks í Simbabwe er með alnæmi og var átakanlegt að heyra að þriðjungur landsmanna á barneignaraldri væri smitaður af alnæmi. Snakkið í Simbabwe vakti einnig mikla athygli. Það er soðnar mýs sem eru svo þurrkaðar eins og harðfiskur og svo þræddar upp á prik (eins og grillpinna) og borðaðar með húð og hári.

Í síðustu viku var klárað að skreyta vegabréfin og svo kom Hannes Óli leiklistarnemi og fór í leiki með Eldhugum. Hannes Óli og leikir hans vöktu mikla lukku og ríkir mikil tilhlökkuní hópnm að hitta hann aftur í þessari viku, en þá er markmiðið að búa til leikþætti þar sem m.a. hugtökin virðing, vinátta, skilningur, hlutleysi, mannúð og fordómar verða höfð að leiðarljósi.