Ferð á Rauða kross slóðir í Sviss

20. okt. 2006

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar komu saman í sjálfboðamiðstöðinni í síðustu viku til að heyra ferðasögu frá Genf í Sviss. Fanney Karlsdóttir og Sigríður Pálsdóttir sögðu í máli og myndum frá ferð sinni með 40 öðrum fulltrúum Rauða kross Íslands til Genfar dagana 16.-21. september.

Markmið ferðarinnar var að kynna sér höfuðstöðvar Rauða kross hreyfingarinnar, annars vegar Alþjóðaráðið og hins vegar Alþjóðasambandið. Genf er auk þess heimaborg stofnanda Rauða krossins, Henry Dunant (1828-1910), en hreyfingin var stofnuð þar í borg árið 1864. 

Fararstjóri í ferðinni var Hólmfríður Gísladóttir sem er vel kunn staðarháttum ytra og hefur starfað fyrir Rauða krossinn í mörg ár. Leiðsögn var einnig í höndum fulltrúa Alþjóðasambandsins og Alþjóðaráðsins sem tóku á móti hópnum og fræddu um ýmis verkefni hreyfingarinnar á alþjóðavísu. Hjá Alþjóðasambandinu fékk hópurinn m.a. að heyra um þá miklu áherslu sem nú er lögð á verkefni vegna alnæmisvandans, einkum í sunnanverðri Afríku. Hópurinn fór einnig á safn um Rauða krossinn sem staðsett er við hlið höfuðstöðvar Alþjóðaráðsins. Á safninu er saga og þróun hreyfingarinnar rakin með myndrænum hætti.

Fanney og Sigríður telja ferðina hafa verið mjög vel heppnaða og hafa veitt þeim mikla innsýn inn í upphaf Rauða krossins og störf félagsins á alþjóðavísu. Þeim fannst ekki síst skemmtilegt að ferðast með 40 öðrum Rauða kross félögum sem voru fulltrúar frá vel flestum af deildum Rauða kross Íslands sem eru alls 51 talsins.

Annað hvert ár skipuleggur Rauði kross Íslands ferð til Genfar í Sviss fyrir sjálfboðaliða og starfsfólk félagsins.