Ís og útileikir fyrir unga innflytjendur

30. okt. 2006

Eigendur ísbúðarinnar í Fákafeni, þau Erla Erlendsdóttir og Hilmir Sigurðsson, buðu öllum krökkum og sjálfboðaliðum í Enter upp á ís síðastliðinn miðvikudag. Fjórir af þeim sjálfboðaliðum sem starfa með krökkunum í Enter skipulögðu ferðina, en tveir þeirra vinna í ísbúðinni í Fákafeni. Að ísferð lokinni var haldið í Hljómskála-garðinn og farið í stórfiskaleik.

Í Enter eru ungir innflytjendur á aldrinum 9-12 ára sem koma vikulega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins. Sjálfboðaliðar veita krökkunum málörvun í gegnum skemmtilega leiki og fræðslu. Boðið er upp á fjölbreyttar vettvangsferðir með jöfnu millibili.

Markmiðið með Enter er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því. Verkefnið er í samvinnu við móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt sem sjálfboðaliði í Enter eða öðrum verkefnum Kópavogsdeildar þá skaltu endilega senda okkur línu á [email protected]