Kópavogsdeild styður börn í Albaníu

3. okt. 2006

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur undanfarin ár stutt börn í Albaníu sem eiga í erfiðleikum. Rauða kross deildirnar í Kópavogi, Garðabæ og á Álftanesi hafa í sameiningu fjármagnað fræðsluverkefni sem beinist að um 150 foreldralausum börnum og börnum í áhættuhópum í þremur borgum í Albaníu.

Í borginni Gjirokastra fengu um 40 börn á aldrinum 7 – 12 ára stuðningskennslu og tóku þátt í ýmsum viðburðum sem sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins í Albaníu skipulögðu. Börnin fengu tækifæri til að taka þátt í umræðum og sameiginlegum lestrarstundum, stunda íþróttir og heimsækja söfn.

Albanía er eitt fátækasta ríki Evrópu og margir foreldrar til sveita líta svo á að börn eigi frekar að vinna fyrir fjölskyldunni en að ganga í skóla. Einn liður í fræðsluverkefninu var þess vegna að starfsfólk Rauða krossins heimsótti foreldra og ræddi við þá um gildi þess að börn þeirra gengju í skóla. Við lok fræðsluverkefnisins var útlit fyrir að um 90% barnanna myndu halda áfram skólagöngu á næsta skólaári.

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur verið í þessu samstarfi við albanska Rauða krossinn undanfarin ár og hefur m.a. stutt heilbrigðisfræðslu fyrir almenning þar í landi. Nú hyggst deildin ljúka þessu verkefni og hefja samstarf við Rauða kross deild í sunnanverðri Afríku. Það er í samræmi við þá stefnu Rauða kross Íslands að auka hjálparstarf í Afríku en þar er talin brýnni þörf fyrir aðstoð en í austanverðri Evrópu.