Sjálfboðaliðum boðið að sjá Amadeus

3. nóv. 2006

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu sýninguna Amadeus á dögunum í boði Borgarleikhússins. Sjálfboðaliðar skemmtu sér afar vel og höfðu margir orð á því að leikur Hilmis Snæs Guðnasonar hefði verið stórkostlegur. Einnig vakti Víðir Guðmundsson verðskuldaða athygli í hlutverki Mozarts.

Verkið fjallar um Wolfgang Amadeus Mozart og Antonio Salieri, hirðtónskáld austuríska keisarans á síðari hluta átjándu aldar. Verkið byggir á sögusögnum um dulafullan dauða Mozarts og þátt Salieri í honum.

Kópavogsdeild þakkar Borgarleikhúsinu kærlega fyrir boðið og að viðurkenna með þessum hætti störf sjálfboðaliða Rauða krossins.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna óeigingjarnt starf sem er íslensku samfélagi afar dýrmætt. Starf sjálfboðaliðanna skilar árangri og veitir þeim ánægju sem njóta aðstoðar þeirra. Sú ánægja er gagnkvæm. Kópavogsdeild leitast við að skapa sjálfboðaliðum sínum áhugaverð störf og umbuna þeim m.a. með skemmtilegum uppákomum með reglulegu millibili. Sífellt er þörf fyrir fleiri sjálfboðaliða til að sinna fjölbreyttum verkefnum og þeir sem vilja taka þátt í gefandi starfi geta haft samband við deildina með því að hringja í síma 554 6626 eða senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is.