Fjölgun hunda í heimsóknaþjónustu

18. nóv. 2006

Fleiri hundar hafa bæst í hóp sjálfboðaliða Kópavogsdeildar Rauða krossins og heimsækja fólk sem óska eftir félagsskap þeirra. Nýjasta viðbótin er hundurinn Pollý sem heimsækir vikulega vistfólk á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð ásamt eiganda sínum Lilju. Þar að auki heimsækja hundar nú öll sambýli aldraðra í Kópavogi, Dvöl sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og Rjóðrið sem er skammtímavistun fyrir langveik börn. Hundar taka einnig þátt í nokkrum heimsóknum sjálfboðaliða í heimahús, þar sem þess er óskað, og eru hundarnir hvatning til þeirra sem vilja fara út að ganga.

Hundar í heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar voru áberandi í hundagöngu sem farin var niður Laugaveginn í byrjun nóvember. Hundaræktarfélag Íslands stóð fyrir göngunni og Rauða kross hundarnir voru í forystusveit göngunnar ásamt einum lögregluhundi.

 

Heimsóknavinir Rauða krossins voru í forystusveit hundagöngunnar með hundana sína.

Sérstakar undanþágur þarf til að fara í heimsóknir með gæludýr á sambýli og stofnanir og einnig þurfa hundarnir að uppfylla viss skilyrði til að fara með. Hundaeigendurnir sækja sérsniðin námskeið fyrir sjálfboðaliða áður en heimsóknir hefjast. Ef þú veist um einhvern sem hefði áhuga á að fá heimsókn frá sjálfboðaliða Rauða krossins, með eða án hunds, er þér velkomið að hafa samband við sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is