Nemendur MK kynntu sér þróunarstarf Rauða krossins

23. nóv. 2006

Nemendur í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda í MK komu fyrir stuttu í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og fræddust um þróunarstarf Rauða krossins. Gestur Hrólfsson, starfsmaður á alþjóðasviði Rauða kross Íslands, kynnti nemendunum þróunarverkefni Rauða kross Íslands í Afríku.

Gestur sagði frá því viðfangsmikla verkefni sem baráttan gegn alnæmi er orðin í álfunni og áherslur Rauða krossins í þeim efnum. Hann benti á hvernig söfnunarféð í landssöfnuninni Göngum til góðs mun nýtast í verkefni Rauða kross Íslands í Afríku til stuðnings börnum sem eiga um sárt að binda vegna alnæmisvandans.

Gestur sagði mikilvægasta framlag sjálfboðaliða Rauða krossins í Afríku kunna að vera það fræðslu- og forvarnarstarf sem þeir inna af hendi meðal fjölskyldna og þorpssamfélaga um alla álfuna. Það væri starf sem oft fari lítið fyrir en beri ríkulegan ávöxt.

Það er orðinn fastur liður í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda í MK að nemendurnir komi í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar einu sinni á önn til að fá innsýn í þróunarverkefni félagsins og setja þau í samhengi við efnið sem fjallað er um í áfanganum. Kennarinn, Hjördís Einarsdóttir, hefur auk þess  fært sér í nyt fjölbreytt fræðsluefni Rauða kross Íslands um þróunarverkefni og tengt það við fleiri kennslustundir. Vefur Rauða kross Íslands og bókasafn eru líka upplýsingaveitur fyrir nemendurna og gagnast þeim við verkefni og ritgerðarskrif í áfanganum.